Kosta Ríka-blogg fimm: uppi í fjöllunum á ný.

Sit í herberginu hennar Bjargar sem er jafnframt tölvuherbergi. Það er steypiregn úti, enda regntímabil. Það var þó sól áðan og við notuðum tækifærið og skelltum okkur í sund.
Í gær komum við aftur upp í fjöllin frá ferð okkar til Karíbahafsins. Það er mjög ólík stemmning þar,
næstum eins og að vera kominn til Jamaica, enda búa margir þarna sem eru ættaðir þaðan. Allt er mjög afslappað og gengur mjög hægt, meira að segja hundarnir veigra sér við að hlaupa, enda er þarna mikill hiti, jafnvel á regntímabilinu. Við gistum fyrst í kofa fyrir fjóra með verönd fyrir framan, mjög kósí en frekar opið þannig að maður hafði það á tilfinningunni að það væri mikið líf í tuskunum. Enda fékk ég líka nokkur bit um nætur. Þarna gistum við tvær nætur, þá fluttum við okkur á ódýrara hótel en alls ekki síðra. Þar gistum við í 4 manna herbergi og ég fékk bara tvö bit aðra nóttina.
Fyrri nóttina fór rafmagnið af þorpinu, enda rafkerfið ekki upp á marga fiska. Við vöknuðum í kæfandi hita, þar sem vifturnar ganga fyrir rafmagni, og niðamyrkri. Um morguninn, þegar við ætluðum í sturtu, var heldur ekkert vatn. En það kom, ásamt rafmagninu, stuttu síðar. Daginn áður en við fórum heim fórum við í smá safarí. Við fórum í gönguferð í regnskóginum, böðuðum okkur í hyl fyrir neðan foss (þetta var kallað natural jacuzy í auglýsingunni), heimsóttum indíánakonu sem sýndi okkur hvernig kakó og súkkulaði er búið til og að lokum heimsóttum við iguana-bú, þar sem ungað er út iguanaeðlum, þeim komið á legg og síðan sleppt. Þegar eðlurnar eru tilbúnar að verpa koma þær aftur og klifra sjálfar inn í girðinguna. Síðan er þeim bara hleypt út þegar þær eru búnar að verpa. Þetta var svakalega skemmtilegur túr, sérstaklega að synda í frumskóginum, þegar maður var búinn að venjast því að vera í vatninu. Ég var heldur ekkert bitin þar. 
Annan daginn, á meðan Gústi fór í brimbrettakennslu, fór ég til læknis. Bitin sem ég fékk nóttina áður en við lögðum í hann voru orðin svo rosaleg
að kálfinn var orðinn bólginn og það var farið að gutla í fætinum á mér vegna bjúgs. Læknirinn gaf mér ofnæmissprautu í rassinn og resept upp á ofnæmislyf og sýklalyf til að ég fengi ekki sýkingu. Bólgan var fljót að hjaðna eftir þetta. Seinna sama dag tók pabbi eftir því að bitin hans voru orðin að blöðrum á fætinum á honum, þannig að hann fór líka til læknis, fékk ofnæmislyf og sýklalyf, sterkari en mín og í lengri tíma, vegna þess að hann var kominn með sýkingu. En bitin hans
voru ekki eftir moskító, eins og mín, heldur flær. Ég hef líka fengið nokkur flóabit, en er greinilega ekki með ofnæmi fyrir þeim. Já, það eru allskonar skorkvikindi sem geta bitið mann hér í Kosta ríka. Ég er með eitt á mjög óhentugum stað, akkúrat undir ólinni á sandalanum á hægri fæti, rétt fyrir ofan litlu tá. Þetta er agalegt. Nú, þegar við erum komin aftur í stöðugt internetsamband má búast við að ég bloggi meira, og við erum að reyna að koma myndunum upp.

 Mynd ársins, Vala og Björg á Alcielo í Alajuela.

Á Alcielo


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband