Styrkur

Ég sótti um skólastyrk um daginn til starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og viti menn, ég fékk hann! Þeir eru greinilega akki alslæmir sem stjórna þessari borg. Ég fékk úthlutað 36.000 krónum úr Starfsmenntunarsjóð St.Rv. Ég þarf bara að koma með kvittun fyrir að hafa borgað skólagjöldin niður á skrifstofu hjá þeim.  Talandi um skólagjöld. Það kemur fram á www.loford.is að Sjálfstæðismenn vilji að námsmenn taki Í AUKNUM MÆLI þátt í kostnaði við nám sitt!!! Fyrir alla muni, ekki láta þessa menn halda völdum!!!


Steinaldarmennirnir

,,...Þá séu einnig vísbendingar um klæðskiptinga." Þetta sannar bara eitt: samkynhneigð er ekki óeðlileg, hún hefur verið hluti af manninum frá upphafi. Ég vil einnig benda á að mörgæsir stunda vændi með steina í hreiðurgerð sem borgun Tounge
mbl.is Steinaldarmenn lifðu fjörugu kynlífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin okkar

Það flaug mér í hug um daginn hvað það er sem er svona frábært við Reykjavík og þá sérstaklega miðbæinn. Þetta er ekkert sérlega falleg borg, langt frá því, þótt hún eigi sína spretti. Tja, hún kemst nú langt í að hafa besta borgarstæðið, en ég get ímyndað mér að útlendingar sem koma hingað sjái hana sem risastóran smábæ. Nei, það sem er frábært við borgina okkar er hvað miðbærinn er afslappaður. Hvar sem er annars staðar í heiminum (nema kannski Þórshöfn og Kulusuuk, ég veit það ekki, hef ekki komið þangað) er hringiða mannlífsins með tilheyrandi umferð og mengun í miðbænum. En ekki í Reykjavík. Staðreyndin er sú að því fjær sem við förum miðju þessarar ágætu borgar, því meira stress og því meiri umferð. Sjáið til dæmis bara Kringluna, Skeifuna, Mjódd og Smáralind. Það er varla hægt að bjóða gangandi vegfarendum upp á að vera þarna á ferli. Miðbærinn, hins vegar, er draumastaður hins gangandi vegfaranda enda býður hann ekki upp á að þúsundir bíla séu þar á ferli. Það að rölta niður Laugarveginn, heilsa fólkinu í rólegheitunum, ekki endilega að vera að fara neitt sérstakt, þetta er yndislegt. Á sumrin eru alls kyns uppákomur í miðbænum, já ég segi það satt! Þegar vel viðrar iðar bærinn af lífi. Götuleikhúsið leikur listir sínar á götunum, erlendir harmónikkuleikarar og trúðar skreyta bæinn og hljómsveitir á vegum skapandi sumarstarfs Hins hússins leika fyrri gesti og gangandi. Við skulum ekki eyðileggja þennan brag sem er yfir litla miðbænum okkar með því að breyta honum í hringiðu nútíma þæginda og veraldarhyggju. Leyfum honum að halda sjarmanum sem felst ekki síst í litlu, fallegu timburhúsunum, sama frá hvaða tímabili þau eru. Ef ákveðið verður að byggja glerháhýsi á horninu þar sem brunarústirnar anda núna frá sér brunalykt, verður gert eitthvað í því? verða mótmæli?  Það ætla ég rétt að vona, því að ég er ekki tilbúin í næsta skref í átt að nútímavæðingu í miðbæ Reykjavíkur, ég vil halda þessu litla sólskini sem Lækjartorg fær. Nú segja kannski sumir að ég sé með fortíðarþrá eftir fortíð sem ég lifði ekki einu sinni. En sannleikurinn er sá, að mér líkar vel við bæinn eins og hann er núna og nútíminn er allt í kring um okkur annars staðar. Má ekki halda gamla ,,lúkkinu" í Grófinni? Ég vil halda sólinni í miðbænum.


Lífið...

Jæja, þá er lífið farið að ganga sinn vanagang... eða svona allt að því. Þórgnýr er risinn úr veikindum sem gætu allt eins hafa verið salmonella eða malaría af einkennunum að dæma, en var að öllum líkindum bara skæð flensa. Ég sit hér og skrifa ritgerð fyrir menningu og sögu heyrnarlausra en verð af og til að taka hugann af henni og beina honum annað, tiltektir, kaffi...  Annars hefur dregið til tíðinda í húsnæðismálum. Við fengum tilboð um daginn, komum með gagntilboð, fengum aftur gagntilboð og tókum því eftir húsfund. Núna erum við að bíða eftir að viðkomandi fjármagni, en hann hefur tvær vikur til þess. Við skulum bara vona að hann láti sig ekki hverfa eins og sá síðasti :S Ef þið vitið um íbúð á sæmilegu verði með þremur herbergjum, baðkari og svölum (ekki skilyrði) í 101, 107 eða 105, endilega látið okkur vita :P


Loforð eða kosningaloforð?

Mér finnst alveg ótrúlegt (þó ekki óeðlilegt, eðli málsins samkvæmt) hvað stjórnarandstöðuflokkarnir finna stjórnarflokkunum allt til foráttu rétt fyrir kosningar og lofa öllu fögru um bætt þetta og bætt hitt. Á sama tíma fara stjórnarflokkarnir fögrum orðum um farsæld, góðæri og blómstrandi efnahag íslensku þjóðarinnar og lofa að halda þeirri stefnu áfram auk þess að bæta allt það sem setið hefur á hakanum undanfarið. Er það bara ég eða er engum trúandi hérna? Fólk lofar og lofar hinu og þessu en verður eitthvað af þessu efnt? Ég segi nú bara eins og í Spaugstofunni: það er munur á loforði og kosningaloforði.
mbl.is Ingibjörg Sólrún: Verðum að standa vörð um jöfnuðinn í íslensku samfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pistill

Fyrst að ég er farin að blogga á opinberum vetvangi ætla ég að nota tækifærið og andurbirta blogg sem birtist í desember 2005.

 

Mig hefur alltaf langað til að vera rithöfundur. Þarna hafðið þið það. Ég hef gert margar tilraunir til þess en allar einhvernvegin bara gufað upp. Ég get skrifað ljóð, en bara ef þau þurfa ekki að ríma, og þau þurfa heldur ekki að hafa ákveðinn endi. Draumur minn er að búa í einhverju sólríku landi, helst nálægt vínekru, stunda kaffihúsin í gríð og erg og skrifa pistla fyrir blöð og útvörp. Vandamálið er það að ég veit ekki hvað er áhugavert að skrifa um. Staðreynd: pabbi minn er rithöfundur, það er systir hans líka. Hún hefur meira að segja unnið til bókmenntaverðlauna. Þið sjáið því að ég á ekki langt að sækja. Hér er vandamálið: ég veit aldrei hvernig ég á að enda. Ég finn upp á voða fínum söguþræði, jafnvel grípandi byrjunarlínu, en get aldrei lokið við það sem ég er að skrifa. Segjum að ég sé að skrifa sögu. Það er mjög líklegt að hún endi einhvernvegin svona: …og hún fann það sem hún hafði leitað að svo lengi og lifði hamingjusöm upp frá því.
Ég lenti í svolitlu skemtilegu um daginn. Þannig er að ég bý við hliðina á Auði Haralds, þjóðþekktum barnabókahöfundi. Ég hef alltaf borið ákveðna virðingu fyrir þeirri konu, móður Elíasar. Hún er með vínrautt hár og skott, gengur um í appelsínugulum vindjakka og hjólar um bæinn á frúarhjólinu sínu.
Einn daginn stóð ég fyrir utan húsið mitt og beið eftir móður minni sem ætlaði að sækja mig. Þá sá ég að frú Auður var að bjástra utan við húsið sitt.
,,Góðan daginn” sagði ég.
,,Góðan daginn” svaraði frú Auður, ,,vantar þig nokkuð þvottagrind?”
Ég varð frekar undrandi á þessari spurningu og stundi út úr mér að reyndar ætti ég þvottagrind.
,,en vantar þig nokkuð sófaborð? Það er svona hátt svo að maður getur borðað fyrir framan sjónvarpið”
Ég útskýrði fyrir henni að á okkar heimili sé ekki borðað fyrir framan sjónvarpið, það sé inni í svefnherbergi og að við horfðum aldrei á sjónvarpið þegar gestir væru í heimsókn. Það leist henni vel á og sagði að við værum mjög siðmenntuð. Við spjölluðum áfram og ég sagði henni frá ástandi hússins sem við búum í og útskýrði fyrir henni að maðurinn sem seldi okkur íbúðina og maðurinn í kjallaranum hefðu verið mægðir, þar að segja að maðurinn í kjallaranum hefði verið kvæntur inn í fjölskyldu þess sem seldi þannig að hann hljóti að hafa vitað af ástandi hússins, en þau skildu í illu, þannig að ekki væri hægt að nota það fyrir rétti því seljandinn hótaði hinum meiðyrðamáli ef það yrði gert. Hún sagðist nú hafa vitað af ástandi hússins lengi og hrósaði mér fyrir gott mál. Sjálf hefði hún ekki heyrt manneskju undir fertugu nota orðið kvæntur og væri sjálf hætt að nota það því enginn skildi hana. Ég þakkaði pent fyrir mig og sagðist alin upp á góðu heimili hvað málfar varðar og að einu sinni kom ég heim alveg eyðilögð og sagði að krakkarnir skildu mig ekki, ég talaði eins og í bók.
Þá bar að mann sem afsakaði fáfræði sína og spurði hvar Eiríksgata væri. Ég útskýrði fyrir honum að ef hann stæði við bakenda Hallgrímskirkju horfði hann inn Eiríksgötu. ,,jaaaá, semsagt við kórinn?” sagði vegfarandinn. Við þetta lyftist frú Auður öll upp og þakkaði manninum fyrir að taka svona til orða. Hann afsakaði sig með því að segjast vera úr sveit.
Eftir þetta spjölluðum við aðeins meira saman um hvernig málfari folks hraki dag frá degi og á endanum var hún búin að gefa mér forláta stássveski og hjólaði á braut í leit að greni til að skreyta fyrir jólin og ég fór í sund.
Jahá, þetta var nú eiginlega bara saga, svei mér þá! En ég vona að hún sé ekki búin og að þetta hafi ekki verið það síðasta í samskiptum okkar frú Auðar, því þetta er alveg þrususkemmtileg kona, verð ég að segja, og þeir sem ekki hafa lesið Elíasarbækurnar ættu að drífa í því.


Grand Hótel?

Var þetta ekki bara Grand Hótel í Reykjavík sem er nýbúið að stækka þessi líka lifandi heil ósköp? Það hefur allavega heldur mikið gengið á þeirri lóð undanfarið.
mbl.is Fór til Íslands og fékk endurgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt blogg.

Ég hef ákveðið að hefja nýtt blogg-líf hér á blog.is. Nú er að sjá hve dugleg ég verð :D

Ég vil benda á að það er þegar komið eitt myndaalbúm. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband